Sunday, October 14, 2007

Mies vailla menneisyyttä

Seinni myndin sem ég fór á hét Maður á fortíðar eða Mies vailla menneisyyttä og er hún partur af Finnlands-Þríleiknum svokallaða. Henni er leikstýrt af Aki Kaurismaki og er sá partur þríleiksins sem fjallar um heimilisleysi. Hinar myndirnar hans sem voru sýndar á hátíðinni fjölluðu um einmanaleikann og atvinnuleysi. Maður án fortíðar var mun skemmtilegri en Loners. Myndin var mjög dökk og litlaus sem kom mjög vel út. Aki Kaurismaki fékk verðlaun fyrir framúrskarandi listræna kvikmyndasýn á hátíðinni og mér fannst frekar fróðlegt að lesa um hann. Myndin segir frá finnskum manni sem kemur með lest til Helsinki en lendir í því að þrír menn ræna hann og lemja. Hann nær að staulast á fætur og koma sér á spítala en hefur fengið það slæma höfuðáverka að hann hefur tapað öllu minni um fyrri tíð. Hann þarf þá að byrja líf sitt uppá nýtt, tekur upp nýtt nafn og verður sér úti um lítinn kofa í fátækrahverfi. Hann nær lífi sínu á þokkalegt ról en er alltaf í peningavandamálum. Leikarinn sem fer með aðalhlutverkið leikur þetta svolítið skemmtilega og beitir nánast engum svipbrigðum alla myndina, sem á vitaskuld ágætlega við hlutverkið. Myndin er þó nokkuð kaldhæðin eins og myndir hans eru oftar en ekki. Aki er þekktur fyrir að vera á móti Hollywood og öllu sem því tengist og því gerir hann allt sem hann getur til að hafa myndina sem ólíkasta Hollywood mynd. Það tekst honum alveg sæmilega.

Maður án fortíðar fékk Grand Prix verðlaun á Cannes 2002 og var tilnefnd til bæði Óskarsverðlauna og Gullpálmans. Og fékk hún góðar viðtökur allstaðar. Að mínu matir er þetta fínasta mynd sem er samt alger óþarfi að fara á í bíó nema manni finnist bíópopp þeim mun betra...

Samotári

Fyrri myndin sem ég fór á á kvikmyndahátíðinni ber heitið Einfarar eða Samotári á frummálinu sem er Tékkneska. Leikstjórinn, David Ondricek, var einmitt maðurinn í „kastljósinu“ á kvikmyndahátíðinni og var honum skipaður sér sess og voru verk hans kynnt nokkuð vel. Ondricek sérhæfir sig í einkennilegum og frumlegum gamanmyndum. Hann gerir því að minnsta kosti tilraunir til að kæta bæði þá sem vilja listrænar myndir og þá sem vilja hlæja. Þessi mynd fannst mér svosem passa inní þetta form, hún var allavega listræn og það hlógu vissulega nokkrir í salnum. Myndin fjallaði um fólk í Tékklandi sem er að fóta sig í lífinu. Eru þarna margar sögur af mörgum einstaklingum sem svo tvinnast saman og í lokin kemur í ljós að það voru tengsl milli langflestra ef ekki allra persónanna. Persónurnar voru nokkuð skrautlegar og ein og ein þeirra skemmtileg. Allt frá því að segja frá nett geggjuðum lækni sem hafði „stalkað“ konu eina í nokkur ár og jafnvel gengið svo langt að brenna sig með henni... sem reyndar misheppnaðist. Þessi læknir var þó giftur og á tvö börn. Skemmtilegasta persóna myndarinnar að mínu mati var svo langt leiddur eiturlyfjaneytandi sem heldur sig þó enn við létt efni. Hann er svo stoned gaur og leikarinn túlkar það afskaplega vel. Það er af honum að segja að hann finnur ástina í lífi sínu og eiga þau afskaplega vel saman. Seinna kemst hann samt að því að grasið sem hann hefur reykt hefur fuckað minni hans svo rækilega upp að hann átti þegar kærustu.

Að mínu mati var lítið varið í þessa mynd og hún var voðalega lítið annað en nokkur flott skot og einn og einn brandari. Þessi mynd er að fá góðar viðtökur og alls ekki slæma imdb einkunn en allavega ekki alveg my cup of tea.